Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 160/2012.

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 27. ágúst 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 160/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 20. september 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 19. september 2012 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 21. september 2012 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kæru, dags. 26. september 2012. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 26. apríl 2012. Ferilskrá kæranda var send til B ehf. 13. ágúst 2012. Í kjölfarið hafði B ehf. samband við kæranda og bauð honum starf en kærandi hafnaði starfinu.

 

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegum skýringum kæranda á höfnun hans á umræddri vinnu. Kæranda var veittur sjö daga frestur til að koma að athugasemdum sínum.

 


 

Vinnumálstofnun barst skýringarbréf kæranda, dags. 3. september 2012, þar sem hann gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum. Segir meðal annars í bréfinu að hann hafi starfað sjálfstætt með vélskóflu sem sé dýrt atvinnutæki. Fyrirtækið hafi boðið honum starf án þess að hann myndi nota vélina í tvo mánuði og á sama tíma mætti hann ekki þiggja starf hjá öðrum þar sem hann gæti notað vélina, þrátt fyrir að honum myndi á þessum tíma bjóðast langtímaverkefni þar sem hann gæti notað hana. Þá hafi fyrirtækið ekki getað gefið honum upp hvaða launakjör væru í boði.

 

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 19. september 2012. Með bréfi, dags. 19. september 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda um hina kærðu ákvörðun þess efnis að fella niður greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í kæru, dags. 26. september 2012, greinir kærandi frá því að ágallar hafi verið á starfstilboðinu. Ekki hafi verið ljóst hver launagreiðandinn væri en líklegt hafi verið að það væri B ehf. en það hafi ekki verið staðfest. Þá hafi ekki verið ljóst hver launakjörin hafi átt að vera en trúlega hafi þau átt að vera samkvæmt lágmarkstaxta viðkomandi verkamannafélags. Auk þessa hefði hann þurft að vera fastbundinn launagreiðandanum í tvo mánuði án þess að geta notað vinnuvélina sína. Kærandi hafi af þessum ástæðum ekki treyst sér til að taka tilboðinu með slíkum skilyrðum frá óþekktum aðila enda miklir hagsmunir í húfi fyrir hann að geta notað vinnuvélina.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. október 2012, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem gerir kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Bent er á að 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við um þann sem hafni starfi eða sinni ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Sé þar tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þessum tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist óreiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Fyrir liggi að kærandi hafnaði starfi hjá B ehf. Vinnumálastofnun bendir einnig á að kærandi taki fram í kæru sinni að hann telji starfið ekki hafa hentað sér þar sem það hafi aðeins átt að vera fyrir hann sjálfan en ekki vinnuvél hans. Þá telji kærandi það ekki sanngjarnt að vinnusamningurinn hljóði upp á tveggja mánaða tímabundinn samning og að hann hafi ekki getað hætt í vinnunni hvenær sem er ef honum byðust önnur störf fyrir sig og vinnuvélina sína. Einnig telji kærandi fram sem ástæðu að hvorki hafi verið ljóst hver launagreiðandinn hafi verið né hver launakjörin yrðu. Vinnumálastofnun telur að það að kæranda hafi ekki verið boðið starf fyrir sig og vinnuvél sína geti ekki talist gild ástæða í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Það geti jafnframt ekki talist gild skýring að atvinnutilboðið fæli í sér tímabundinn samning og að kærandi gæti ekki hætt vinnu hvenær sem er. Ljóst sé að launagreiðandinn hafi verið Behf. og launakjörin hefðu aldrei orðið lægri en samkvæmt lágmarkstaxta. Eins og fram komi í lögum um atvinnuleysistryggingar þarf umsækjandi að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu.

 

Í ljósi ofangreinds telur Vinnumálastofnun að kærandi hafi í umrætt sinn hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Er það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma í tvo mánuði frá ákvörðunardegi, sbr. 1. mgr. 57. gr. sömu laga.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. október 2012, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. nóvember 2012. Kærandi sendi inn athugasemdir sínar með bréfi, dags. 31. október 2012.

 

Í athugasemdum kæranda, dags. 31. október 2012, kemur fram að hann mótmæli afstöðu Vinnumálastofnunar þess efnis að ekki komi neinar afsakanir til greina fyrir höfnun vinnutilboðs. Þá greinir kærandi frá því að málið hafi aldrei komist á það stig að kærandi hafi fengið tækifæri til að hafna framkomnu tilboði. Kærandi greinir frá því að þegar honum var boðið starfið hafi hann viðrað ástæður sínar og gert grein fyrir að hann óskaði eftir því að fá að losna úr viðkomandi starfi ef honum byðist langtímaverkefni fyrir sig og vinnuvél sína en þá hafi viðbrögð B ehf. verið þau að það væri greinilegt að hann vildi ekki starfið og þetta mál þyrfti því ekki að ræða frekar. Kærandi hafi því hvorki haft tækifæri til að taka starfinu né hafna því. Kærandi vill því meina að B ehf. hafi afturkallað starfstilboð sitt er hún heyrði af aðstæðum hans og því hafi hann ekki hafnað boði hennar um starf. Kærandi telur að það að vinnuveitanda lítist ekki á umsækjanda og vilji ekki fá hann til starfa, geti ekki jafngilt því að viðkomandi hafi hafnað starfi.

 

Með bréfum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. október 2012 og 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni vegna gríðarlegs málafjölda.

 

2.

Niðurstaða

 

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.

 

Í 4. mgr. sömu greinar segir eftirfarandi:

Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum c-, e- og f-liðar 1. mgr. þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit. Enn fremur er heimilt að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt mati sérfræðilæknis.

 

Líkt og fram hefur komið sótti kærandi um atvinnuleysisbætur 26. apríl 2012. Vinnumálastofnun sendi ferilskrá kæranda til B ehf. 13. ágúst 2012 og er í máli þessu óumdeilt að kæranda var boðið starf þar í kjölfarið. Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi borið, eftir að greinargerð Vinnumálastofnunar var send honum til umsagnar, að hann hafi ekki hafnað starfinu heldur hafi B ehf. afturkallað starfstilboð sitt er hún heyrði af aðstæðum hans.

 

Kærandi gaf Vinnumálastofnun upp þær skýringar í bréfi til Vinnumálastofnunar, dags. 3. september 2012, að ástæðan fyrir því að hann hafnaði starfinu hafi verið sú að hann hafi ekki getað starfað þar með vinnuvélina sína, starfið væri í tvo mánuði og hann hafi ekki mátt taka öðru starfi á þeim tíma ef það byðist. Eru þetta sömu skýringar og koma fram í kæru, dags. 26. september 2012, en þar kemur að auki fram að kærandi hafi hvorki verið viss um hver yrði launagreiðandinn hafi verið né hvaða launakjör hann myndi fá og af þeim sökum hafi hann hafnað starfinu.

 

Í samskiptaskrá Vinnumálastofnunar við kæranda er eftirfarandi skráð 27. ágúst 2012: „Hafnaði starfi hjá B á þeim forsendum að honum var boðin vinna í 3-4 daga í að grafa einbýlishúsalóð. C sagði að hún gæti beðið og hann komið eftir að hann yrði búin en hann sagði samt nei takk.“

 


 

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, þar segir í a-lið 1. mgr. að launamaður þurfi að vera í virkri atvinnuleit skv. 14. gr. laganna. Í a–h-liðum 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru talin upp skilyrði fyrir því að teljast vera í virkri atvinnuleit. Í a-lið kemur fram að launamaður skuli vera fær til flestra almennra starfa. Í c-lið kemur fram skilyrði þess efnis að launamaður skuli hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, og uppfyllir skilyrði annarra laga. Í d-lið kemur fram skilyrði um að launamaður skuli hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og í f-lið kemur fram að launamaður skuli vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða eða vaktavinnu. Þá segir í h-lið að launamaður skuli vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða.

 

Upphaf máls þessa má rekja til þess að Vinnumálastofnun hafði samband við B ehf. og sendi henni ferilskrá kæranda. Kæranda var því í lófa lagið að spyrjast fyrir um hver vinnuveitandinn væri ef hann hefur talið að vafi léki þar á og er því ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að hann hafi ekki vitað hver myndi vera launagreiðandinn. Í máli þessu liggja ekki fyrir nein gögn um að umrætt starf hjá B ehf. hafi ekki uppfyllt skilyrði um greiðslu samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980, eða annarra laga og verður því jafnframt ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að hann hafi ekki vitað hver launakjörin yrðu. Einnig verður ekki fallist á þá málsástæðu kæranda að hann geti gert það að skilyrði fyrir því að hann taki starfi að hann fái að starfa með vinnuvél sína, sbr. fyrrgreind skilyrði 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Með vísan til alls framangreinds verður fallist á það með Vinnumálastofnun að skýringar kæranda á höfnun atvinnutilboðs hafi ekki verið gildar í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, breytir þar engu um hvort kærandi telji að B ehf. hafi afturkallað atvinnutilboð sitt eftir að hann hafi sett fram skilyrðin. Með vísan til þessa, sem og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir ákvörðun sinni, verður hún staðfest.

 


Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 19. september 2012 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði frá og með 21. september 2012 er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum